Hoppa yfir valmynd
19. júní 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fimm ára innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð samþykkt í ríkisstjórn

Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð
Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun fimm ára innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Fyrsta verkefnið á þessu sviði var unnið árið 2005 og árið 2009 hófst formleg innleiðing. Frá þeim tíma hafa verið unnin fjölmörg og fjölbreytt verkefni í öllum ráðuneytum á sviði kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar. Áhersla á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð hefur aukist mjög að undanförnu á alþjóðavísu og þar með þekking á kynjaáhrifum fjárlaga.

Vitað er að fjárlög eru ekki hlutlaus þegar kemur að kynjunum heldur hefur ráðstöfun og öflun opinbers fjár margvísleg áhrif á stöðu kynjanna, tækifæri þeirra og valkosti ásamt því að kynjamisrétti er samfélögum dýrkeypt. Efnahagsleg velferð er meiri í ríkjum þar sem misrétti er minna og því hefur leiðarljós innleiðingar hér á landi verið að með kynjaðri fjárlagagerð fari réttlæti og sanngirni hönd í hönd við efnahagslega velferð.

Ávinningurinn af kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð felst aðallega í fjórum þáttum. Í fyrsta lagi er stuðlað að jafnrétti. Í öðru lagi verða til mikilvægar upplýsingar með því að greina kynjaáhrif sem stuðla að upplýstari ákvarðanatöku. Í þriðja lagi leiðir kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð til betri nýtingar opinberra fjármuna. Í fjórða lagi fylgir kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð betri efnahagsstjórn þar sem ákvarðanir hins opinbera hafa áhrif á val og kosti einstaklinga.

Ísland er framarlega í heiminum þegar kemur að jafnréttismálum og trónir sem stendur á toppnum á The Global Gender Gap lista World Economic Forum. Það þýðir að Ísland er í leiðtogahlutverki í jafnréttismálum sem birtist meðal annars í því að hingað til lands leitar fólk frá öðrum löndum til að kynna sér stöðu mála og hvað er vænlegt til árangurs, m.a. í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð.

Í næsta hluta innleiðingar er lögð meiri áhersla en áður á að nýta kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð við ákvarðanatöku. Mat á jafnfréttisáhrifum frumvarpa er tengt við kynjaða fjárlagagerð, sem og mat á áhrifum fjárlagatillagna. Slíkt mat er gert ef talið er að frumvarp eða fjárlagatillaga hafi miðlungs eða mikil áhrif á kynjajafnrétti. Þá er áfram er lögð áhersla á verkefni, kyngreind gögn og fræðslumál. Innleiðingaráætlunin tekur tekur jafnframt mið af frumvarpi til laga um opinber fjármál, sem nú er til umfjöllunar hjá Alþingi, en þar er að finna ákvæði um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum