Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stjórnendur í ríkisrekstri telja sig njóta mikils sjálfstæðis í starfi

COCOPS könnunin var gerð meðal stjórnenda í íslenskum ríkisrekstr
COCOPS könnunin var gerð meðal stjórnenda í íslenskum ríkisrekstri

Stjórnendur í ríkisrekstrinum á Íslandi njóta mikils sjálfstæðis í starfi s.s. við val, mótun og innleiðingu stefnu sem og almennt í starfsmannamálum, samanborið við stjórnendur í Evrópu.  Þegar kemur að mikilvægi umbóta leggja stjórnendur mesta áherslu á gegnsæja og opna stjórnsýslu, rafræna stjórnsýslu, niðurskurð og að draga úr áhrifum skrifræðis á skilvirkni.

Þetta eru niðurstöður í alþjóðlegu COCOPS könnuninni á skoðunum og reynslu opinberra stjórnenda á Íslandi í tengslum við umbætur í ríkisrekstrinum. Könnunin er umfangsmikil og var gerð hér á landi í fyrra, en hún hefur verið lögð fyrir æðstu stjórnendur í 20 Evrópuríkjum. Farið var  yfir niðurstöður könnunarinnar á fundi í Háskóla Íslands í morgun, en fjármála- og efnahagsráðuneytið, Félag forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ stóðu að fundinum.

Meðal annarra niðurstaðna könnunarinnar er að rétt um fjórðungur stjórnenda í ríkisrekstrinum telur að gæði opinberar stjórnsýslu hafi þróast í átt til betri vegar á síðustu fimm árum.  Um helmingur telur að hlutirnir hafi staðið í stað meðan um fjórðungur telur að stjórnsýslan hafi versnað. Svipaðar niðurstöður má finna meðal stjórnenda í Evrópu. Yfir helmingur stjórnenda í ríkisrekstrinum telur að umbætur séu krísukenndar og ólíkar frá einu tilviki til annars og að þær snúist meira um niðurskurð og sparnað en að bæta þjónustu.

Á fundinum í morgun greindi Pétur Berg Matthíasson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, frá helstu niðurstöðum könnunarinnar og bar saman svör stjórnenda á Íslandi við svör evrópskra stjórnenda.  Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við HÍ fjallaði umbótaviðleitni og árangur stjórnsýsluumbóta í Evrópu út frá svörum stjórnenda. 

Kynning Péturs Berg Matthíassonar

Kynning Gunnars Helga Kristinssonar

Á fundinum í morgun var einnig kynnt skýrslan Umbætur í opinberri stjórnsýslu á Íslandi: Viðhorfskönnun meðal stjórnenda í stofnunum og ráðuneytum.  Skýrslan hefur að geyma mun ítarlegri umfjöllun um niðurstöður COCOPS rannsóknarinnar á Íslandi. 

Umbætur í opinberri stjórnsýslu á Íslandi: Viðhorfskönnun meðal stjórnenda í stofnunum og ráðuneytum (PDF 611 KB)

Um COCOPS rannsóknina:

COCOPS (Coordinating for Cohesion in the Public Sector of the Future) rannsóknin er ein stærsta samanburðarrannsókn á umbótum í opinberri stjórnsýslu sem fram hefur farið í Evrópu. Íslenski hluti rannsóknarinnar var samstarfsverkefni fjármála- og efnahagsráðuneytis,  stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands og samstarfsnets evrópskra háskóla.  Markmið COCOPS rannsóknarinnar var að greina á heildstæðan hátt þær áskoranir sem opinberi geirinn í Evrópu stendur frammi fyrir og að skoða kerfisbundið áhrif umbóta sem kenndar eru við nýskipan í opinberum rekstri. 

Frekari upplýsingar um COCOPS rannsóknina veitir Pétur Berg Matthíasson, [email protected]

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum