Hoppa yfir valmynd
19. desember 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Breytingar á virðisaukaskatti, almennu vörugjaldi og barnabótum um næstu áramót

Nýverið var frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um ýmsar stefnumarkandi skattkerfisbreytingar samþykkt sem lög frá Alþingi. Með samþykkt laganna er tekið mikilvægt skref í heildarendurskoðun á lögum um virðisaukaskatt  jafnframt því sem skattkerfið er einfaldað til stórra muna með brottfalli almenns vörugjalds. Í lögunum er einnig að finna breytingar á barnabótum til hækkunar.

Virðisaukaskattur. Samkvæmt nýsamþykktum lögum mun skatthlutfall virðisaukaskatts, bæði almenna þrepið og lægra þrepið, breytast frá og með næstu áramótum. Jafnframt mun undanþágum frá skattskyldu fækka frá og með áramótum 2015/2016. Breytingarnar eru nánar tiltekið eftirfarandi:

  • Almenna skatthlutfallið í virðisaukaskatti lækkar úr 25,5% í 24% 1. janúar 2015.
  •  Lægra skatthlutfallið í virðisaukaskatti hækkar úr 7% í 11% 1. janúar 2015.
  •   Ýmis ferðatengd þjónusta mun verða skattskyld í lægra þrepi frá og með 1. janúar         2016.

Með þessum lagabreytingum er stórlega dregið úr þeim mikla mun sem verið hefur milli almenna þrepsins og lægra þrepsins, eða um 5,5 prósentustig. Með slíkri breytingu er lagður grunnur að skilvirkara kerfi virðisaukaskatts um leið og dregið er úr hættu á skattundanskotum með tilfærslu milli þrepa. Með bættum skilum ættu tekjur ríkissjóðs af þessum mikilvæga skattstofni að aukast til lengri tíma litið, sem aftur skapar svigrúm til frekari breytinga á skatthlutföllum. Breytingarnar þýða einnig að almenna skatthlutfallið í virðisaukaskatti verður það lægsta í sögu hans, jafnframt því að nálgast það sem almennt er í nágrannalöndunum, ef frá er talin Danmörk, Noregur og Svíþjóð þar sem hlutfallið er hærra, eða  25%. Í Finnlandi er almenna hlutfallið 24%, 23% í Írlandi og 20% í Bretlandi.

Fyrir liggur að skattstofn virðisaukaskatts samkvæmt gildandi lögum er talsvert þrengri hérlendis en víðast hvar annars staðar. Undanþága fólksflutninga og margvíslegrar þjónustu sem tengist ferðamannaiðnaði er þar mest áberandi. Sú undanþága gerir fyrirtækjum í ferðaþjónustu erfitt um vik, þegar að kemur að skattskilum og um leið virðisaukaskattkerfið sem heild óskilvirkara, því mörg þeirra eru einnig að selja skattskylda vöru og/eða þjónustu, ýmist í almennu þrepi eða í því lægra. Með samþykkt laganna um breikkun skattstofnsins þar sem þjónusta eins og hvalaskoðun, hestaleiga, snjósleðaferðir o.fl. verður skattskyld í lægra þrepi frá og með 1. janúar 2016 er stigið ákveðið skref í þá átt að auka skilvirkni virðisaukaskattskerfisins, samhliða því að stuðla að betra samræmi í gjaldtöku innan ferðaþjónustugeirans.

Vörugjald. Hinn 1. janúar 2015 mun svokallað „almennt vörugjald“, sem lagt er á vörur af ýmsu tagi, falla brott.  Með því lýkur nær þriggja áratuga sögu gjaldsins sem er mörkuð af sívaxandi gagnrýni á úrelta neyslustýringu af þessum toga í nútímasamfélagi. Álagningu vörugjaldsins má grófum dráttum skipta niður á eftirfarandi efnisflokka:

  •        Sykruð matvæli: föst krónutala á kg, mishátt eftir sykurinnihaldi.
  •       Sykraðar drykkjarvörur (þó ekki áfengar og ávaxtasafar): föst krónutala á lítra, mishátt eftir sykurinnihaldi.
  •     Byggingavörur, bílavörur, þ.m.t. bílavarahlutir: 15% á cif-verð eða innlent framleiðsluverð.
  •       Stærri heimilistæki (ísskápar, þvottavélar, eldavélar o.fl.): 20% á cif-verð eða innlent framleiðsluverð.
  •        Önnur raftæki (sjónvörp, myndbandstæki, hljómflutningstæki o.fl.): 25% á cif-verð eða innlent framleiðsluverð.

Rökin fyrir álagningu vörugjalds á sykraðar vörur hafa byggst á því að óhófleg neysla þessara vara hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks og því eigi hið opinbera að stýra þessari tegund af neyslu með sérstökum álögum. Sú stýring þarf hins vegar að vera nógu öflug til að draga úr eftirspurn eftir sykruðum vörum. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í apríl 2014 kemur fram að stofnunin telji líklegt að vörugjaldið sé of lágt til að hafa slík áhrif. Niðurfelling vörugjalda á sykraðar vörur nú breytir þó ekki markmiðum stjórnvalda um bætta lýðheilsu almennings. Auknar forvarnir og fræðsla, einkum meðal barna og ungmenna, er hins vegar talin líklegri til að skila markverðari árangri í þeim efnum en óskilvirk neyslustýring í formi vörugjalda.

Engin rök standa lengur til að leggja vörugjald á bilinu 15-25% á vöruflokka eins og byggingavörur, bílavarahluti og ýmis rafknúin heimilistæki sem eru sjálfsagður hluti af heimilishaldi sérhverrar fjölskyldu. Hér hafa tekjuöflunarsjónarmið einkum ráðið för án tillits til mismununar milli eðlislíkra vara með tilheyrandi ógagnsæi og flækjum í framkvæmd. Með brottfalli almenna vörugjaldsins um næstu áramót er því stigið stórt skref í því að einfalda íslenskt skattkerfi hvað neysluskattlagningu varðar.

Barnabætur. Nýsamþykkt lög fela í sér tæplega 16% hækkun á fjárhæðum barnabóta.Til þess að sú hækkun nýtist betur tekjulægri barnafjölskyldum var einnig samþykkt hækkun á tekjuskerðingarhlutföllum um eitt prósentustig. Samanlagt munu útgjöld ríkissjóðs vegna greiðslu barnabóta hækka um 1,3 mia.kr. vegna þessara breytinga. Sú hækkun er hugsuð sem sérstök mótvægisaðgerð gegn mögulegum áhrifum hærra matvælaverðs vegna hækkunar lægra þrepsins í virðisaukaskatti.

Áhrif skattkerfisbreytinganna á verðlag og ráðstöfunartekjur. Umræddar lagabreytingar munu hafa áhrif á vísitölu neysluverðs, bæði til hækkunar og lækkunar, að öðru óbreyttu. Þegar allt er lagt saman er talið að breytingar á virðisaukaskatti og brottfall vörugjalds lækki vísitölu neysluverðs um allt að 0,4%, að því gefnu að þær skili sér að fullu í ákvörðunum um smásöluverð eftir áramót. Reikna má með að blöð, bækur og húshitun hækki um allt að 4%, en föt, hreinlætis- og snyrtivörur, lyf, símakostnaður, smærri heimilistæki og húsgögn lækki um liðlega 1%. Matvöruliðurinn mun væntanlega hækka eitthvað, eða nálægt 1,5-2%, en móti hækkun virðisaukaskatts fellur vörugjald af sykruðum vörum brott. Aðrir vöruflokkar sem bera vörugjald munu hins vegar lækka mun meira, eða 15-20% að meðaltali.

Heildaráhrif framangreindra breytinga á afkomu ríkissjóðs eru metin 6,5 mia.kr. til lækkunar að meðtalinni hækkun barnabóta. Ráðstöfunartekjur heimila ættu því að óbreyttu að hækka um svipaða fjárhæð. Rétt er að taka fram að hér er ekki tekið tillit til þess að lækkun á vísitölu neysluverðs vegna kerfisbreytingarinnar lækkar höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána, sem minnkar greiðslubyrði þeirra og eykur þar með ráðstöfunartekjur viðkomandi fjölskyldna.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum