Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2014 Forsætisráðuneytið

Nýtt jafnlaunamerki einstakt og lýsandi

Verðlaunaafhendingin
Verðlaunaafhendingin

Sæþór Örn Ásmundsson bar sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni um jafnlaunamerki sem efnt var til af aðgerðahópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Alls bárust 156 tillögur sem er met í sambærilegum keppnum sem Hönnunarmiðstöð Íslands hefur komið að.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tilkynnti nafn sigurvegarans og vinningstillöguna í dag í hádegishléi norrænnar ráðstefnu um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði á Hótel Hilton Nordica.

Jafnlaunamerkið verður veitt fyrirtækjum og stofnunum sem hljóta vottun um launajafnrétti kynja samkvæmt nýjum jafnlaunastaðli. Í umsögn dómnefndar segir að vinningstilllaga Sæþórs Arnar sameini þá þætti sem endurspegli inntak jafnlaunastaðalsins. „Í merkinu má sjá mynd sem sýnir skífurit, stimpil, rúnir og brosandi andlit tveggja ólíkra einstaklinga. Í lögun minnir merkið á mynt eða pening og gefur þannig til kynna að einstaklingarnir sem þar sjást séu metnir jafnir að verðleikum. Merkið býður upp á alþjóðlega notkun, er einstakt og lýsandi fyrir verkefnið,“ segir í umsögninni.

Samstarf um fræðslu og ráðgjöf við innleiðingu jafnlaunastaðals

Jafnlaunastaðallinn ÍST 85:2012 er afurð áralangs samstarfs heildarsamtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda, sem í dag undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um fræðslu og ráðgjöf við innleiðingu hans.

Samstarfsyfirlýsing undirrituðMarkmiðið með innleiðingu jafnlaunastaðals er að auka gagnsæi og gæði launaákvarðana svo sömu kjör fylgi jafnverðmætum störfum. Staðallinn er byggður upp eins og alþjóðlegir stjórnunarstaðlar og fyrirtæki og stofnanir sem vilja nýta hann þurfa að uppfylla kröfur staðalsins og hljóta sérstaka vottun geri þau það.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur leitt tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals hjá 11 stofnunum ríkisins, 2 sveitafélögum og 8 einkafyrirtækjum. Vonast er til að fyrstu stofnanirnar og fyrirtækin geti fengið úttekt og vottun á jafnlaunakerfi sínu á vormánuðum ársins 2015.

Dómnefnd vegna hönnunarsamkeppninnar skipuðu: Benendikt Þór Valsson, Sambandi íslenskra sveitafélaga, og Guðný Einarsdóttir, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu, bæði tilnefnd af aðgerðahópi stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, Birna Geirfinnsdóttir, fagstjóri í grafískri hönnun í LHÍ, Örn Smári Gíslason, grafískur hönnuður, og Sóley Stefánsdóttir, grafískur hönnuður, öll tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands.

Sæþór Örn Ásmundsson lærði videografík í IED í Mílano. Hann rekur, ásamt konu sinni, lítið hönnunarstúdíó undir nafninu Vinnustofan í gamla Álfheimakjarnanum í Reykjavík.  Sæþór segist hafa unnið merkið svolítið eins og málverk með mjög litlum „línukvóta“. „Merkið er smekkfullt af myndmáli, í grunninn  er því skipt í 2 jafna helminga af  karli og konu, brosandi út að eyrum. Einnig hefur merkið skírskotun í 10 krónu mynt, rúnir og stimpil“ segir Sæþór Örn Ásmundsson, sem hlaut eina milljón króna í verðlaun.

Staðið við jafnlaunamerkið

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum