Hoppa yfir valmynd
10. október 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um þróun í fjölda stöðugilda hjá ríkinu

Fjöldi stöðugilda/ársverka í dagvinnu hjá ríkinu hefur nokkuð verið til umræðu undanfarið og misvísandi fullyrðingar komið fram. Bæði Viðskiptaráð og BSRB hafa birt samanburð á þróun frá árinu 2000 til ársins 2014. Niðurstöður þeirra eru ólíkar og virðist helsta ástæða þess vera sú að flutningur verkefna á milli ríkis og sveitarfélaga er ekki tekinn með í reikninginn á sama hátt, né heldur stofnanir sem komið hafa inn í miðlægt launakerfi ríkisins á tímabilinu, en voru áður utan þess. Til dæmis flyst rekstur sjúkrahúsa frá sveitarfélögum til ríkis á þessu tímabili, en launaafgreiðsla þeirra var ekki færð í hið miðlæga launakerfi fyrr en síðar.

Allar upplýsingar um fjölda stöðugilda hjá ríkinu eru byggðar á upplýsingum sem til eru í launakerfi ríkisins sem er hluti af Orra, fjárhags- og upplýsingakerfum ríkisins. Athuga ber að ekki eru allar stofnanir sem teljast ríkisstofnanir innan Orra, sem dæmi um slíka stofnun má nefna Seðlabanka Íslands.

Helstu breytingar á tímabilinu

Almennt má segja að við skipulagsbreytingar fjölgi eða fækki stöðugildum ríkisstarfsmanna. Til einföldunar verður hér á eftir einungis litið til stærstu kerfisbreytinganna á tímabilinu sem hafa marktæk árif á fjölda stöðugilda.

  • 2001 flytjast 1.300 stöðugildi til ríkisins vegna sameiningar Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala, áhrifin eru um 9% fjölgun stöðugilda.
  • 2006 koma 1.500 stöðugildi frá heilbrigðisstofnunum inn í launakerfi ríkisins, sem veldur fjölgun um 9%. Ekki er um fjölgun stöðugilda að ræða heldur færslu milli kerfa.
  • 2011 flytjast málefni fatlaðra frá ríkinu til sveitarfélaga, áhrifin eru um 5% fækkun stöðugilda.

Breyting frá árinu 2000 til 2014 er um 17% fjölgun stöðugilda ef ekki er gert ráð fyrir kerfisbreytingum.

Breyting frá 2008 til 2014 er 10,4% fækkun stöðugilda, en þá er ekki gert ráð fyrir flutningi stofnana, sem telja um 5%.

Fjölgun stöðugilda hjá ríkinu frá 2000 til 2014 er því ekki 17% eins og virðist við fyrstu sýn heldur innan við 4% að teknu tilliti til flutninga stofnana og kerfisbreytinga.

Fækkun frá árinu 2008 til 2014 er ekki 10%, heldur nær 5%.

Meðfylgjandi tafla sýnir ársmeðaltal stöðugilda árin 2000 til og með 2014, en fyrir árið 2014 er notað meðaltal síðustu 12 mánaða (frá 08/2013 til 07/2014).

Ár Fjöldi
Stærstu
kerfisbreytingar
Athugasemdir
2000 14.198
2001 15.637 1300 Sameining Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala
2002 15.790
2003 16.161
2004 16.272
2005 16.431
2006 17.763 1500 Heilbrigðisstofnanir flytja launaafgreiðslu til ríkisins
2007 18.802
2008 18.532
2009 18.152
2010 17.745
2011 16.807 -946 Málefni fatlaðra til sveitarfélaga
2012 16.732
2013 16.768
2014 16.600

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum