Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Reglugerð um ríkisaðstoð sem undanþegin er tilkynningarskyldu

Í dag tók gildi innan evrópska efnahagssvæðisins reglugerð (ESB) um almenna hópundanþágu sem tiltekur skilyrði þess að veita megi fyrirtækjum ríkisaðstoð á tilteknum sviðum án þess að leita þurfi eftir samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA.

Reglugerðin kemur í stað eldri reglugerðar frá 2008.  Í henni eru tilgreindir flokkar aðstoðar, hámarks aðstoðarhlutföll og kveðið á um gagnsæi í veitingu aðstoðar [1].

Af nýjum flokkum aðstoðar sem bætast við með gerðinni má helst nefna aðstoð vegna lagningar háhraðanets, menningar og varðveislu menningararfleifðar, orkugrunnvirkja, hljóð- og myndmiðlaverka, grunnvirkja á sviði tómstunda og aðstoð til að bæta tjón vegna tiltekinna náttúruhamfara (m.a. jarðskjálfta og eldgosa). Meðal eldri flokka aðstoðar sem áfram falla undir heimildarákvæði reglugerðarinnar má nefna byggðaaðstoð, aðstoð til umhverfisverndar og aðstoð til menntunar.

Ef til staðar eru heimildir í landslögum geta stjórnvöld, að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar, veitt fyrirtækjum ríkisaðstoð af því tagi sem kveðið er á um í reglugerðinni og telst hún samrýmanleg ríkisaðstoðarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) og undanþegin tilkynningarskyldu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Nánar er kveðið á um tilkynningarskylduna í svonefndum ESE-samningi [2]. 

Gert er ráð fyrir því að um tveir þriðju hlutar af allri ríkisaðstoð sem veitt er í dag innan EES gæti fallið undir ákvæði hinnar endurskoðuðu reglugerðar, eða sem nemur þremur fjórðu allra ríkisaðstoðarráðstafana. Stefnt er að því að þessi hlutföll hækki enn frekar á komandi árum. Framkvæmdin er þannig að fyrirhugaðar ráðstafanir sem fela í sér veitingu ríkisaðstoðar eru ýmist mátaðar við ákvæði reglugerðarinnar eða þær hannaðar með reglugerðina í huga. Í stað þess að ráðstafanirnar þurfi að tilkynna eru grunnupplýsingar um þær skráðar á staðlað eyðublað sem ESA er látið í té, í hvert sinn sem aðstoðarkerfi er hrundið í framkvæmd eða sérstök (ad hoc) aðstoð er veitt [3]. 

Það er á ábyrgð viðkomandi stjórnvalda, þ.e. ráðuneyta, stofnana, ríkisfyrirtækja og sveitastjórna að meta hvort ráðstafanir fela í sér ríkisaðstoð og gæta þess jafnframt að slík aðstoð samrýmist skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur með höndum samræmingar- og leiðbeiningarhlutverk gagnvart öðrum stjórnvöldum vegna ríkisaðstoðarmála. 

Þá tók nýverið gildi innan EES ný reglugerð (ESB) um svokallaða minniháttaraðstoð (de minimis aid) sem heimilar veitingu aðstoðar sem nemur allt að 200 þúsund evrum til hvers viðtakanda, yfir hvert þriggja ára tímabil. Að uppfylltum skilyrðum þeirrar reglugerðar teljast ráðstafanir ekki til ríkisaðstoðar í skilningi 61. gr. EES-samningsins[4].
---
[1] Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 frá 21. maí 2014 þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 107. og 108. gr. sáttmálans. Gerðin hefur ekki verið þýdd á íslensku en verður þegar þar að kemur birt á íslensku í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB.
Á ensku er gerðin nefnd General Block Exemption Regulation (GBER). Fullt heiti á ensku er Commission Regulation (EU) No 651/2014 of 21 May 2014 declaring certain categories of aid compatible with the internal market in application of Articles 107 and 108 of the Treaty. Gerðin er aðgengileg á tungumálum Evrópusambandsins í Stjórnartíðindum ESB

Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2014  frá 27. júní 2014 og gildir með þeirri aðlögun sem fram kemur í ákvörðuninni. Í aðlögunartexta er m.a. skipt út tilvísunum til 107. og 108. gr. sáttmálans fyrir tilvísanir til 61. og 62. gr. EES-samningsins og til ESE-samningsins.

Frá og með gildistöku hinnar nýju GBER fellur úr gildi reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008, frá 6. ágúst 2008, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2008.

[2] Samningur milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Innan ESB er kveðið á um tilkynningarskylduna í 3. mgr. 108. gr. sáttmálans um starfshætti ESB, SUSE. Sjá einkum bókun 3 við samninginn 

[3] Eyðublaðið sem fylgir gerðinni hefur verið staðfært af EFTA-skrifstofunni

[4] Reglugerð framkvæmdarstjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins varðandi minniháttaraðstoð, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr.98/2014 frá 16. maí 2014. Hún kemur í stað reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1998/2006  frá 15. desember 2006 um beitingu 87. og 88. gr. sáttmálans varðandi minniháttaraðstoð. Íslensk þýðing reglugerðarinnar liggur ekki fyrir en hún er aðgengileg á tungumálum Evrópusambandsins í Stjórnartíðindum ESB.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum