Hoppa yfir valmynd
30. maí 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Óskað eftir umsögnum vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki

Fjármála- og efnahagsráðuneytið óskar eftir umsögnum vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki.  

Fjármála- og efnahagsráðherra lagði í vor fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Ekki náðist að mæla fyrir frumvarpinu fyrir frestun þingsins. 


Frumvarpið var að stærstum hluta unnið af nefnd sem ráðherra skipaði í nóvember 2012. Nefndinni var falið að gera tillögur að innleiðingu á tilskipun 2013/36/ESB (CRD IV) og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (CRR) í íslenskan rétt. 

CRD IV/CRR gerðirnar byggja á alþjóðlegum Basel III staðli og fela í sér heildarendurskoðun Evrópusambandsins á regluverki á sviði fjármálamarkaðar, þ.e. umgjörð og starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlits með þeim.

Með frumvarpinu var stefnt að því að stíga fyrsta skrefið í því að aðlaga íslenska löggjöf á sviði fjármálamarkaða að því sem gerist í nágrannaríkjum Íslands.

Helstu breytingar og nýmæli sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:

- Breytingar á ákvæðum um starfsleyfi, þ. á m. þeim ástæðum er geta leitt til afturköllunar starfsleyfis,
 - nýtt ákvæði um kvartanir bætist við lögin en sambærilegt ákvæði er að finna í frumvarpi sem nýverið var samþykkt um vátryggingarstarfsemi og miðlun vátrygginga,
- ákvæðum er varða störf áhættustýringar breytt til þess að styrkja störf áhættustýringar og óhæði hennar,
- lögð er til breyting á ákvæði um stórar áhættuskuldbindingar,
- nokkrar breytingar á VI. kafla laganna um eignarhluti og meðferð þeirra. Um er að ræða breytingar á frestum til að skila inn upplýsingum til Fjármálaeftirlitsins eða fyrir Fjármálaeftirlitið til þess að staðfesta upplýsingar. Ásamt þessu er mörkum til þess að tilkynna breytingar á virkum eignarhlutum breytt,
- breyting á 49. gr. laganna til þess að styrkja heimildir Fjármálaeftirlitisins til þess að fara með viðvarandi eftirlit með hæfi eigenda virkra eignarhluta og að Fjármálaeftirlitið geti brugðist við óæskilegu eignarhaldi á fjármálafyrirtæki,
- ýmsar breytingar á kaflanum um stjórn fjármálafyrirtækja sem miða að því að bæta ákvæði um hæfi stjórnarmanna. Ásamt því eru lagðar til breytingar á ákvæði um verkskiptingu stjórnar og framkvæmdarstjórnar og skerpt á skyldum sem hvíla á stjórnarmönnum til þess að fara yfir áhættustýringu fyrirtækisins,
- breytingar á ákvæðum er varða starfskjarastefnu og kaupaukakerfi fjármálafyritækja. Lagt er til að kaupaukar geti ekki verið hærri en 25% af árslaunum starfsmanns, en hluthafafundur hefur heimild til þess að hækka þetta hlutfall í 100% með auknum meirihluta atkvæða. Þá er lagt til að opnað verði fyrir að ákveðnar einingar sem nú eru útilokaðar fái að þiggja kaupaukagreiðslur, t.d. starfsmenn áhættustýringar, innri endurskoðunar og regluvörslu. Í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur skv. ákvæðinu skal Fjármálaeftirlitið setja viðmið um kaupaukagreiðslur til umræddra starfseininga en þessar reglur munu byggja á viðmiðum frá Norðurlöndunum. 
- Kaupaukar geti sætt lækkun, niðurfellingu eða umbreytingu í nýtt hlutafé við skilameðferð fjármálafyrirtækis
,- við lögin bætist nýr kafli er fjallar um meðhöndlun áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækis og í honum verði að finna ákvæði sem varðar starfrækslu sérstakarar áhættunefndar innan fjármálafyrirtækis,
- tekinn verði upp í íslenskan rétt ákvæði um sérstakan verndarauka. Með gildistöku hans er fjármálafyrirtækjum skylt að viðhalda aukalega 2,5% eigið fé til þess að bæta viðnámsþrótt þeirra þegar áföll verða í rekstri þeirra. Ef fjármálafyrirtæki brýtur gegn ákvæðinu eru settar takmarkanir á útgreiðslu arðs eða greiðslum kaupauka til starfsmanna,
- breyting á ákvæði er varðar innihald ársreikninga. Í ákvæðinu komi m.a. fram hvort fjármálafyrirtæki hafi þegið hverskonar opinberar greiðslur og gera þarf grein fyrir öllum dótturfélögum og útibúum félagsins,
- tvær breytingar á lögunum til að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA
.- Þá eru breytingar á viðurlagakafla laganna í samræmi við breytingar í frumvarpinu.

Í heild er frumvarpinu ætlað að bæta umgjörð fjármálafyrirtækja hér á landi þannig að þau verði rekin á hagkvæman og skilvirkan hátt og með því að reyna að koma í veg fyrir að atburðir seinustu ára endurtaki sig. 

Þeir sem óska eftir því að koma á framfæri athugasemdum við frumvarpsdrögin geta gert það með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected], með orðunum „CRD IV/CRR frumvarp“ í fyrirsögn. Einnig er hægt að koma athugasemdum á framfæri við ráðuneytið með hefðbundnum bréfpósti. Frekari upplýsingar veitir Leifur Arnkell Skarphéðinsson, lögfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu (  [email protected] ). 

Síðasti dagur til að skila umsögn er mánudagurinn 18. ágúst 2014

Vakin er athygli á því að frekari breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eru fyrirhugaðar. Breytingarnar varða innleiðingu ákvæða tilskipunar 2013/36/ESB um áhættuþætti, valdheimildir eftirlitsaðila, könnunar- og matsferli eftirlitsaðila og eiginfjárauka (e. Capital Buffers). Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi haustið 2014.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki (PDF)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum