Hoppa yfir valmynd
7. maí 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Rætt um sveigjanleika í hagstjórn á ráðherrafundi OECD í París

Bjarni Benediktsson á ráðherrafundi OECD. Fremstur á myndinni, fyrir miðju, er Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD. Mynd:OECD/Michael Dean
Ráðherrafundur

Sveigjanleiki í hagstjórn og mikilvægi þess að geta tekist á við efnahagsleg áföll voru efst á baugi á ráðherrafundi OECD í París dagana 6-7. maí, en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sat fundinn fyrir hönd Íslands.

Á fundinum var einnig rætt um hvernig best verði stuðlað að auknum hagvexti sem allir njóti góðs af. Ennfremur var fjallað um ástand og horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum, nýjar áskoranir sem ríki standa frammi fyrir í kjölfar fjármálakreppunnar, hvernig styðja megi við hið alþjóðlega viðskiptakerfi og um tengsl viðskipta og þróunar. Þá var samstarfsáætlun OECD við Suðaustur-Asíu  hrundið af stokkunum.

Í tengslum við ráðherrafundinn var einnig haldin ráðstefna (OECD Forum) sem var opin almenningi og var pallborð sem fjármála- og efnahagsráðherra tók þátt í hluti af þeirri dagskrá. Pallborðið bar yfirskriftina Getum við treyst bönkum – Can we Bank on Banks.

Á fundinum var efnahagsspá OECD kynnt. Er þar m.a. að finna kafla um íslensk efnahagsmál. Þar kemur fram að hagvöxtur hafi verið umtalsvert meiri á Íslandi árið 2013 en búist hafði verið við, sem skýrist af vexti í útflutningi og ferðamennsku. Þá telur OECD að aukin atvinnusköpun og löggjöf um lækkun verðtryggðra fasteignaskulda heimilanna muni örva einkaneyslu á árinu og styðja enn frekar við efnahagsbatann. 

Á ráðherrafundinum var einnig samþykkt yfirlýsing um sjálfvirk upplýsingaskipti á sviði skattamála sem öll aðildarríki OECD samþykktu, ásamt Argentínu, Brasilíu, Kína, Kosta Ríka, Kólumbíu, Indlandi Indónesíu, Lettlandi, Litháen, Malasíu, Saudi Arabíu, Singapúr og S-Afríku.Með yfirlýsingunni skuldbinda ríki sig til að skiptast sjálfkrafa á fjármálaupplýsingum, sem mun útrýma bankaleynd og gera undanskot frá skatti erfiðari. 

Þá var samþykkt ráðherrayfirlýsing um helstu umræðuefnin á fundinum og einnig yfirlýsing um loftslagsmál. 

Ráðherrafundinum var að þessu sinni stýrt af Japan, sem nú fagnar því að hálf öld er liðin frá því að landið gerðist aðili að OECD. Varaformennska var í höndum Bretlands og Slóveníu.

Pallborðsumræður sem fjármála- og efnahagsráðherra tók þátt um traust á bönkum 

Bjarni Benediktsson í pallborði á fundi OECD. OECD/Herve Cortinat

Fjármálaráðherra í pallborðsumræðunum. Myndir: OECD/Herve Cortinat

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum