Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lög um Seðlabanka Íslands endurskoðuð

Fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram og kynnti á fundi ríkisstjórnar, nú í morgun, minnisblað um endurskoðun á lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.
 
Nokkur reynsla hefur fengist á þá skipan sem ákveðin var með breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands í febrúar 2009. Að mati fjármála- og efnahagsráðherra er tímabært að taka þær breytingar og fleiri þætti er varða lög um Seðlabanka Íslands til endurskoðunar. Einnig sé mikilvægt að skoða hvort ástæða sé til að gera breytingar á skipulagi fjármálamarkaðar og Fjármálaeftirlitsins í því skyni að efla samstarf og skýra verkaskiptingu milli Fjármálaeftirlitsins og bankans.

Mun fjármála- og efnahagsráðherra setja á fót starfshóp til að leggja mat á æskilegar breytingar. Hópurinn skal hafa það að markmiði að treysta trúverðugleika og sjálfstæði bankans og traust á íslenskum efnahagsmálum. 

Samhliða ákvörðun um endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands hefur seðlabankastjóra verið tilkynnt, með vísan til 2. mgr. 23. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að ákveðið hafi verið að auglýsa embætti seðlabankastjóra laust til umsóknar. Er það gert til að gefa stjórnvöldum aukið svigrúm í tengslum við mögulegar breytingar á lögum um Seðlabankann.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum