Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skýrsla nefndar um athugun á stjórnsýslu skattamála

Stytta þarf málsmeðferðartíma hjá yfirskattanefnd og koma í veg fyrir endurtekna rannsókn meiriháttar skattamála samkvæmt nýrri skýrslu nefndar um athugun á stjórnsýslu skattamála.

 Jafnframt segir í niðurstöðum skýrslunnar að ganga þurfi úr skugga um að ákvæði skattalaga um jafnhliða beitingu álags og refsingar vegna brota á lögunum samræmist banni við tvöföldu refsinæmi og að skýra verði mörk milli starfssviða eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra og embættis skattrannsóknarstjóra. Að auki þurfi að huga því að fjármála- og efnahagsráðuneytið sinni vel eftirlits-, stjórnunar- og stefnumótunarhlutverkum sínum.


Fjármálaráðherra skipaði nefndina 20. september 2013 og lauk hún störfum 20. desember. Formaður var Ragnhildur Helgadóttir, prófessor, en auk hennar sátu Garðar G. Gíslason hdl. og Guðrún Þorleifsdóttir lögfræðingur í nefndinni. Starfsmaður var Rakel Jensdóttir.


Skýrslan er fyrsti áfangi í athugun á stofnanakerfi skattamála þar sem kortlögð verður starfsemi stofnana þess með tilliti til réttaröryggis, skilvirkni og jafnræðis, auk samstarfs og tengsla stofnana skattkerfisins við fjármála- og efnahagsráðuneytið.


Nefndinni var m.a. sérstaklega falið að meta hvort gildandi réttur skapi hættu á tvíverknaði, óhagkvæmni, misjöfnum niðurstöðum í samskonar málum og óþarflega löngum málsmeðferðartíma.


Fjármálaráðherra hefur átt fund með forstöðumönnum þeirra stofnana skattkerfisins sem í hlut eiga og rætt efni skýrslunnar. Í framhaldinu verðu endurskoðun á stofnanakerfi skattamála skipt í afmarkaðri þætti. Þar verður sérstaklega athugað hvernig ráðuneytið geti betur sinnt eftirlits- og stefnumótunarhlutverki sínu, aðstæður sjálfstæðra úrskurðarnefnda kannaðar, ásamt innheimtu opinberra gjalda og fyrirkomulagi skatteftirlits og skattrannsókna.

Skýrsla nefndar um athugun á stjórnsýslu skattamála

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum