Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lánskjör Íslands á erlendum mörkuðum

Íslensk og bandarísk ríkisskuldabréf (2016)

Vorið 2011 opnuðust alþjóðalánamarkaðir að nýju fyrir Íslandi, í fyrsta sinn frá hruni. Ríkissjóður gaf þá út skuldabréf að fjárhæð 1 milljarður Bandaríkjadala. Skuldabréfin voru gefin út til 5 ára með gjalddaga árið 2016. Í maí 2012 var staða Íslands á alþjóðamörkuðum styrkt enn frekar með annarri útgáfu einnig að fjárhæð 1 milljarður Bandaríkjadala og var sú útgáfa til 10 ára, með gjalddaga árið 2022.

Lengst af síðan Ísland endurheimti aðgang sinn að alþjóðamörkuðum hafa kjör á lán ríkissjóðs verið að batna. Kjörin hafa fylgt löndum með svipað lánshæfismat en þróunin verið ívið hagstæðari fyrir Ísland. Yfirlýsingar bandaríska seðlabankans um að draga úr peningalegum slaka, sem fram komu í maí 2013, snéru þessari þróun við. Fyrst í stað hafði hún ekki sýnileg áhrif á ávöxtunarkröfu skuldabréfa ríkissjóðs í erlendri mynt en um síðir tók hún að hækka í takt við markaðinn. Ávöxtunarkrafan á 5 ára bréfunum var 2,91% 23. janúar síðastliðinn. Á sama tíma var ávöxtunarkrafa 5 ára bandarískra ríkisskuldabréfa 0,57%. Álagið var því 2,34 prósentustig á kröfu íslensku bréfanna og hefur álagið verið svipað allt síðasta ár með meðalálagi 2,31 prósentustig. Krafan á 10 ára bréfunum var á sama tíma 5,19% en 2,58% á 10 ára bandarískum bréfum. Þar var álagið því 2,61 prósentustig en var að meðaltali 2,53 prósentustig árið 2012.

Skuldabréf ríkissjóðs sem gefin voru út í Bandaríkjunum 2011 (5 ára) og 2012 (10 ára) voru seld yfir 200 fjárfestum. Yfir 90% þeirra eru fjárfestingarsjóðir sem líta á bréfin sem langtíma fjárfestingu og eru því líklegir til að halda þeim til gjalddaga. Það veldur því að seljanleiki bréfanna er lítill og verðmyndum óskilvirkari en hjá þeim ríkissjóðum sem virkari eru á fjármagnsmarkaði og gefa út stærri skuldabréfaflokka. Verðmyndunin verður einnig óskilvirkari eftir því sem lengra líður frá síðustu útgáfu. Kjör á þessum bréfum eru því ekki endilega góð vísbending um vexti sem fengust ef ný skuldabréf yrðu gefin út.

Fjárfestar sýna Íslandi mikinn áhuga um þessar mundir og ljóst er að markaðir eru opnir ef til nýrrar útgáfu kæmi. Vel er fylgst með þróun ríkisfjármála og efnahagsmála og sá árangur sem náðst hefur er eftirtektarverður að mati fjárfesta.

Íslensk og bandarísk ríkisskuldabréf (2022)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum