Hoppa yfir valmynd
28. júní 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kynning á frumvarpi til laga um opinber fjármál

Í dag, föstudag, lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram til kynningar í ríkisstjórn drög að frumvarpi til laga um opinber fjármál. Frumvarpið er unnið af stýrinefnd sem skipuð var í nóvember 2011, til að vinna að endurskoðun laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, með síðari breytingum.

Í stýrinefnd áttu sæti ríkisendurskoðandi, fjársýslustjóri, hagstofustjóri, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga og embættismenn í fjármála- og forsætisráðuneytum, auk áheyrnarfulltrúa sem fjárlaganefnd Alþingis tilnefndi til að taka þátt í störfum nefndarinnar. Ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytis var formaður nefndarinnar.  Samkvæmt skipunarbréfi bar stýrinefndinni að líta til þeirra aðferða og verklags sem fremst er talið í tengslum við ríkisfjármál, fjárlagagerð, fjárstjórn og reikningshald hins opinbera. Nefndin skipaði fjóra vinnuhópa til að fjalla um einstaka þætti verkefnisins og alls má ætla að um 30 sérfræðingar hafi komið að því verki. Sérfræðingar  frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) veittu einnig liðsinni sitt, en sendinefnd sjóðsins kom til Íslands í lok árs 2011 og gerði tæknilega úttekt á umgjörð opinberra fjármála hér á landi. Afrakstur af nefndarstarfinu eru meðfylgjandi drög að frumvarpi til laga um opinber fjármál.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um heildstæða umgjörð um opinber fjármál eins og heiti þess gefur til kynna. Í því augnamiði er gert ráð fyrir að tiltekin ákvæði frumvarpsins, einkum stefnumótun um opinber fjármál, taki til opinberra aðila í heild sinni, þ.m.t. sveitarfélaga.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ítarlegri ákvæði en nú gilda um hvernig staðið skuli að stefnumörkun og áætlanagerð í opinberum fjármálum, og mælt er fyrir um grundvallarbreytingar á framsetningu fjárlaga auk þess sem eftirlit með framkvæmd fjárlaga verður gert markvissara. Þá mælir frumvarpið fyrir um að reikningsskil opinberra aðila í A-hluta verði byggð á reikningsskilastaðli Alþjóðareikningsskilaráðsins um uppgjör opinberra aðila, IPSAS-staðlinum  Markmið þessa er að tryggja vandaðan undirbúning stefnumörkunar í opinberum fjármálum, breytt og skýrari ábyrgðarskil löggjafar- og framkvæmdavalds, aukinn aga og festu við opinbera fjárstjórn og framkvæmd fjárlaga, bætt eftirlit og, síðast en ekki síst, skýrari sýn á langtímamarkmið í fjármálum hins opinbera.
Stefnt er að nánu samstarfi við nefndir Alþingis við frekari undirbúning málsins á næstu misserum og að fullbúið frumvarp verði lagt fyrir Alþingi næsta haust.

Meðfylgjandi eru (1) drög að frumvarp til laga um opinber fjármál (lagagreinar), (2) almenn greinargerð með frumvarpinu og (3) glærukynning (PDF 1,3 MB) sem ætlað er að skýra efni frumvarpsins.

Óskað er eftir athugasemdum um efni frumvarpsins fyrir 20. ágúst næstkomandi. Allar athugasemdir og aðrar ábendingar skulu sendar á netfangið [email protected].

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum