Hoppa yfir valmynd
5. mars 2013 Matvælaráðuneytið

Samvinna Íslands og Færeyja efld

Viljayfirlýsing við Færeyjar mars 2013
Viljayfirlýsing við Færeyjar mars 2013

Ísland og Færeyjar hafa ákveðið að auka samvinnu sín á milli með sérstakri áherslu á atvinnuþróun og nýsköpun. Þetta kemur fram í viljayfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja sem undirrituð var á ráðstefnu í Þórshöfn í Færeyjum í dag.

Færeyingar voru fyrsta þjóðin sem bauðst til að lána Íslandi eftir hrunið í október 2008. Til þess að sýna Færeyingum þakklæti ákvað ríkisstjórn Íslands í desember síðastliðnum að standa fyrir ráðstefnu um möguleika landanna á samstarfi, ekki síst varðandi atvinnuþróun og nýsköpun. Stefnt er að því að slík ráðstefna verði haldin til skiptis í löndunum tveimur ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti.

Í viljayfirlýsingu sem atvinnu- og fjármálaráðherrar landanna tveggja undirrituðu er því sérstaklega fagnað „að hafin er samvinna milli Færeyinga og Íslendinga um hugsanlega kosti þess að eiga viðskipti með endurnýjanlega orku um sæstreng milli landanna. Áfram verður byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið um samstarf á sviði nýsköpunar með það að markmiði að þekking sem verður til í öðru landinu nýtist í hinu“.

Þar  kemur ennfremur fram að leggja eigi áherslu á að varðveita sameiginlega menningararfleifð þjóðanna tveggja og viðhalda vinarhug og samkennd sem ríkt hafi í samskiptum þeirra.

Sannur vinargreiði gagnvart Íslandi

Í ávörpum sem Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, fluttu á ráðstefnunni lögðu þau áherslu á þann vinarhug sem Færeyingar sýndu Íslendingum eftir  hrun efnahagskerfisins 2008.

Miklar fjárskuldbindingar hafi fallið á íslenska ríkið við hrunið og fáar þjóðir hafi viljað lána Íslandi peninga nema með ströngum skilyrðum. Færeyingar hafi boðist til að lána Íslandi án skilyrða. Þótt lánið hafi ekki verið hátt í stóra samhenginu hafi árhifin á íslenskt samfélag verið sterk og mikil. 

Viljayfirlýsing milli Íslands og Færeyja.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum