Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samkomulag um aukna íbúðabyggð á Vatnsendahæð

Fjármála- og efnahagsráðherra og bæjarstjóri Kópavogsbæjar hafa undirritað samkomulag um skipulag og uppbyggingu á landi í eigu ríkis og sveitarfélagsins á Vatnsendahæð í Kópavogi undir aukna íbúðabyggð. 

Land ríkisins á Vatnsendahæð er samtals um 7,5 hektarar að stærð og er kaupverðið 395 m.kr. Heildarsvæðið sem verið er að taka undir byggð er hins vegar samtals um 30 hektarar. 

Með samkomulagi þessu er ríkið að leggja sitt af mörkum við auka lóðaframboð undir íbúðir til að mæta þeirri húsnæðisþörf sem þegar er til staðar á markaðnum

segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Kópavogsbær kaupir land ríkisins á svæðinu í samræmi við samkomulagið og mun sameina það öðru landi sveitarfélagsins og annast gerð deiliskipulags þannig að hægt sé að hefja uppbyggingu á svæðinu. Áformað er að koma um 500 íbúðum fyrir á heildarsvæðinu, þar af sérbýli að hluta til, og verður kappkostað að skipulag verði vandað og nýting landsins góð. 

Það er mjög ánægjulegt að ná þessu samkomulagi um kaup á landi ríkisins sem gerir Kópavogsbæ kleift að halda áfram með uppbyggingu íbúða á Vatnsenda. Loksins erum við að brjóta nýtt land undir sérbýli en við höfum ekki gert það um nokkuð langt skeið

segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar.


Á Vatnsendahæð hefur um áratugaskeið verið aðstaða fyrir útsendingar og fjarskipti sem mun víkja fyrir íbúðarbyggð. Miðað er við að fjarskiptabúnaði sem nú er á landinu verði komið fyrir í nýrri fjarskiptaaðstöðu á Úlfarsfelli sem Neyðarlínan hefur komið upp. 

Á Vatnsendahæð er einnig útvarpshús sem var reist árið 1929 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins sem leitast verður við að varðveita en þó með þeim hætti að hægt sé að finna því nýtt hlutverk í tengslum við fyrirhugaða íbúðabyggð. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum