Hoppa yfir valmynd
26. júní 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nær allar mótvægisaðgerðir vegna heimsfaraldurs komnar til framkvæmda

Nær allar mótvægisaðgerðir sem gripið hefur verið til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eru komnar til framkvæmda. Eftir stendur greiðsla launa á uppsagnarfresti, en stefnt er að því að fyrsti hluti komi til greiðslu fyrir 20. júlí, og stuðningslán þar sem verið er að leggja lokahönd á umsóknargátt.

Meirihluti fyrirtækja er ánægður með aðgerðirnar samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið í apríl og maí. Um helmingur fyrirtækja sem þátt tók í könnuninni telur sig vel í stakk búinn til að takast á við tímabundin áföll á næstu mánuðum, en innan við fjórðungur stendur illa. Hátt hlutfall fyrirtækja sem telur stöðu sína ágæta virðist endurspeglast í minni eftirspurn eftir viðbótar- og stuðningslánum og frestunum skattgreiðslna en búist var við í upphafi sem gæti bent til þess að lausafjárvandi fyrirtækja sé ekki jafn alvarlegur og óttast var um tíma, m.a. vegna annarra aðgerða.

Hlutabætur

Frá því að lög um hlutabætur tóku gildi hafa verið greiddir út tæpir 16 ma.kr.

 

Atvinnuleysi tengt hlutabótaleiðinni lækkaði úr 10,3% í 5,6% á milli apríl og maí. Einstaklingar sem fengu hlutbætur eru starfsmenn 5.200 fyrirtækja og var meðalbótahlutfall 60%. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að staðfestum umsóknum muni fækka enn frekar í júlí og ágúst þar sem gerð er krafa um hærra starfshlutfall á því tímabili, auk þess sem skilyrði fyrir þátttöku í leiðinni voru þrengd við framlengingu.

 

Greiðsla launa á uppsagnarfresti

Frá því að frumvarp um greiðslu launa í uppsagnarfresti var samþykkt á Alþingi í lok maí hefur Skatturinn unnið að tæknilegri útfærslu, þar sem leysa þurfti úr ýmsum atriðum vegna skilyrða sem sett voru í lögunum. Stefnt er að því að afgreiða umsóknir vegna maímánaðar 2020 í síðasta lagi 20. júlí n.k.

Frestun skattgreiðslna

Launagreiðendum var í mars veitt heimild til að fresta 50% af staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds sem var á gjalddaga 1. mars. Nærri fjórðungi allrar staðgreiðslu, eða 11, 3 mö.kr., var frestað. Þar af eru 4,4 ma.kr. útsvar og 6,9 ma.kr. tekjuskattur og tryggingagjald. 

Í framhaldi kom til framkvæmda ný heimild sem heimilar launagreiðendum sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða að óska eftir frestun á allt að þremur greiðslum á staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds sem eru á gjalddaga í apríl til og með desember 2020. Um er að ræða skilyrta og mun afmarkaðri heimild og því lækkar frestun á staðgreiðslu milli mars og apríl. Í apríl nam frestunin 3,9 ma.kr. sem er um 9% af allri staðgreiðslu, í maí nam hún 2,2 ma.kr. sem er um 5% af allri staðgreiðslu og í júní 3 ma.kr. sem er um 6% af allri staðgreiðslu.

Skilahlutfallið er þrátt fyrir það mun hærra en búist var við þegar frumvarp um frestun var lögfest og gefur vísbendingar um að lausafjárvandi flestra fyrirtækja hafi orðið minni en óttast var í fyrstu, m.a. vegna verulegra áhrifa annarra aðgerða ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

Stuðningslán

Seðlabankinn og viðskiptabankarnir hafa lokið samningum um stuðningslán og hefur Seðlabankinn tilkynnt að hann muni veita bönkunum sérstök veðlán á meginvöxtum (nú 1%) til fjármögnunar lánanna.

Bankarnir telja þó nokkra eftirspurn vera eftir stuðningslánum sem komi að einhverju leyti í stað viðbótarlána (brúarlána). Umsóknarferlið er í lokaprófunum hjá bönkunum og verður í kjölfarið opnað fyrir umsóknir, en upplýsingasíðu um lánin, ásamt reiknivél, er að finna á Ísland.is

Brúarlán (viðbótarlán)

Ekkert er til fyrirstöðu fyrir bankana að veita brúarlán. Seðlabankinn mun láta ráðuneytinu reglulega í té samantekt með lykilupplýsingum um lánin. Mun ráðuneytið birta opinberlega upplýsingar um lántaka sem njóta ábyrgðar, innan 12 mánaða frá því lán með ábyrgð er veitt.
Umsóknarferli brúarlána er á vegum bankanna, en upplýsingasíðu er að finna á Ísland.is. 

Lokunarstyrkir

Opnað var fyrir umsóknir um lokunarstyrkinn þann 12. júní sl. Sótt er um lokunarstyrkinn rafrænt í gegnum skattur.is en ítarleg upplýsingasíða ásamt reiknivél hefur verið sett upp á Ísland.is. Skatturinn sér um afgreiðslu umsókna og umsýslu en Fjársýslan sér um útgreiðslu.

 

Útgreiðsla séreignarsparnaðar

Í apríl var opnað fyrir heimild einstaklinga til að taka út séreignarsparnað. Hver einstaklingur má taka úr allt að 12 m.kr. Útgreiðslan dreifist með jöfnum greiðslum á allt að 15 mánaða tímabil að hámarki 800 þúsund á mánuði.

Í heildina áætlaðar útgreiðslur sem nema 15,5 mö.kr. sem dreifast fram í mars 2022. Opið er fyrir umsóknir út þetta ár þannig að heildarumfang aðgerðarinnar verður ekki ljóst fyrr en að þeim tíma liðnum.

 

Greiðsluhlé lána

Í samræmi við samkomulag lánveitenda er einstaklingum og fyrirtækjum veitt heimild til að fresta afborgunum lána sinna vegna breyttra aðstæðna í COVID faraldrinum. Úrræðið felur í sér að afborganir liggja niðri á meðan á úrræðinu stendur en vextir reiknast á höfuðstól og leggjast við hann.

Fyrirtækjum í greiðsluhléi hefur fjölgað frá því opnað var fyrir úræðið. Gæti það m.a. skýrst af því að lengri tíma tók fyrir lánveitendur að ljúka samþykki á greiðsluhléi fyrirtækja en einstaklinga. Fyrirtæki í greiðsluhléi eru um 1.700 og nema skuldir þeirra um 260 mö.kr. Meðalskuldir hvers fyrirtækis eru 150 m.kr.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum